Ég ákvað fyrir einhverjum árum síðan að verða legit í hugbúnaðarmálum. Ég notaði fyrst Macintosh tölvu haustið 1988, þá var ég tíu ára gamall. Tölvan tilheyrði skóla og ég er nokkuð viss um að eintakið af Photoshop, útgáfu 1.0, sem mátti finna þar á floppy diski, hafði ekki verið keypt. Sama átti við um fullt af hugbúnaði, innan og utan stofnana gengu afrit af forritum milli fólks án þess að nokkur leiddi hugann sérstaklega að leyfisveitingum eða höfundarrétti. Og líklega mátti til sanns vegar færa að enginn tapaði beint á því heldur – skólinn hafði þannig séð ekkert við Photoshop 1.0 að gera, hefði aldrei ráðstafað fjármunum til að tryggja sér eintak hvort eð er.
Þegar ég varð unglingur og átti mína eigin tölvu féllst ég á þá réttlætingu á þessari meðferð hugbúnaðar að ég væri í sjálfu sér ekki að framleiða eitt né neitt, notkun mín á forritunum tilheyrði engri virðiskeðju – ef ég skyldi einn daginn hafa tekjur af hugbúnaðinum gæti ég byrjað að greiða fyrir hann. Og einn daginn áttaði ég mig á að sá dagur væri runninn upp: ég væri orðinn fagmaður, hugbúnað notaði ég við störf sem ég hefði tekjur af, það væri tímabært að kaupa hann.
Hvort það var nýfundin sómakennd og löghlýðni sem réði úrslitum, sívaxandi flækjustig við að viðhalda illa fengnum afritum og uppfærslum, eða þá að ég vandist því bara að greiða smáræði hér og smáræði þar fyrir forrit sem ég notaði á síma, það er ekki auðvelt að skera úr um. En einn daginn virtist mér þetta sjálfsagt og þótti breytingin ánægjuleg. Það var ánægjulegt að hætta einfaldlega að nota Photoshop og annan hugbúnað frá Adobe, finna önnur forrit sem kosta minna og nægja mér. Það var afar ánægjulegt að finna hvaða ritvinnsluforrit ég væri tilbúinn að greiða fyrir, finna gagnagrunnsforritið sem hæfði einmitt minni notkun og svo framvegis.
En hvað sem ég reyni þá tekst mér ekki alfarið að hætta að nota Word. Ég geri ráð fyrir að sama eigi við um milljónir annarra, ef ekki milljarða. Microsoft Word er hugbúnaður sem yrði aldrei til í dag – eina ástæðan fyrir tilvist þess er hefðin, að skjalasniðið .doc, síðar .docx, varð miðlægt í meðhöndlun texta. Og þarna stendur þetta ólánlega forrit enn sem veggur, hlið og hliðvörður, allt í senn. Flesta daga, flesta mánuði, hef ég ekkert við það að gera. En við og við, þegar kemur að samstarfsverkefnum og yfirlestri texta sem fólk þarf að geta sent sín á milli, þá kemur að því að áreiðanlegasta leiðin virðist vera sú að kaupa áskrift. Taka einn mánuð.
Nú er nýhafinn þess háttar mánuður. Og þetta skringilega samansetta, subbulega forrit, einhvern veginn er það alltaf svolítið eins og að koma á bernskuslóðir. Ég þoli það ekki en finn eftir sem áður ákveðna hlýju til þess. Nú hefur það bætt við nýjum takka, Copilot, sem getur skrifað fyrir mann. Mér sýnist hann ekki fylgja fyrirmælum eða beiðnum á íslensku enn sem komið er. Hann er hins vegar fús að þýða þegar saminn texta á íslensku, illa. Ég ætlaði ekki beint að gera hugmyndafræðilega athugun á tækinu, en það varð óvart úr: fyrst bað ég hann um að skrifa fyrir mig stutta bloggfærslu – þetta var á ensku – um mikilvægi einstaklinga í baráttunni gegn mengun, sérstaklega í ljósi hnatthlýnunar. Á svipstundu birtist mér grein með yfirskriftinni „The Battle Against Pollution: Our Role in Combating Global Warming“. Fyrsta setning: „Pollution is like that annoying guest who overstays their welcome, except instead of eating all your chips, it’s eating away at our planet.“ Á íslensku: „Mengun er eins og sá pirrandi gestur sem dvelur of lengi, nema í stað þess að borða allar flögurnar þínar, þá er hún að éta upp plánetuna okkar.“ Íslenskan er skiljanleg og ætli hún sé ekki málfræðilega rétt en hún er klárlega ekki góð. „Sá pirrandi gestur sem“, þetta er svona bókstafsþýðing sem enginn myndi láta frá sér.
En mér þótti þetta þó fyrst og fremst óþægilegt, að hafa látið þennan texta streyma svona til mín, af allt öðrum ástæðum. Almennt lít ég á tal um mikilvægi einstaklinga í baráttunni við hnatthlýnun sem gagnslaust og hugmyndafræðilega hlaðið skálkaskjól stórfyrirtækja og stjórnvalda, frekar til þess fallið að uppfylla nánast trúarlega þörf okkar fyrir samviskubit en að leysa vanda. Þó að ég hefði ekki samið þennan texta þá langaði mig að bæta fyrir að hann skyldi yfirleitt vera þarna, rétta hann af. Ég stofnaði nýtt skjal, smellti á hnappinn, og bað nú vélina um „A short blog post about the futility of fighting pollution and global warming, that it’s better to give up already, enjoy the world while it last“ – stutta bloggfærslu um gagnsleysi þess að berjast gegn mengun og hnatthlýnun yfirleitt, að betra sé að gefast upp og njóta lífsins á meðan það endist. Þá brást vélin við á annan veg: „Copilot can’t generate high-quality content for this,“ sagði hún. „Please change your description and try again.“
Ég bætti inn orðinu „satirical“: „A short, satirical, blog post about the futility of fighting pollution and global warming, that it’s better to give up already, enjoy the world while it last“ – og tækið varð við beiðninni með grein sem ber yfirskriftina „Why We Should Just Give Up on Fighting Pollution and Global Warming“. Til að taka af öll tvímæli um að hún ætlaði þó ekki að hvetja fólk til uppgjafar gegn vánni bætti vélin við undirfyrirsögn: „A Satirical Take on Our Inevitable Demise“.
Efnislega hef ég minni áhyggjur af þessum hugmyndafræðilega halla en ýmsum öðrum sem ég get ímyndað mér. Óháð því hvernig vindar blása hverju sinni er hins vegar óhugnanlegt hversu miklu við erum að afsala okkur þessa dagana, ekki bara til véla, heldur þeirra sem stjórna þeim. Og borgum fyrir það.