Gæti orðið leiðandi

04.3.2025 ~ 4 mín

Í dag átti ég fund með vini mínum og samverka­manni. Þetta var góður fundur, og ekki að því undan­skildu að líklega vörðum við á milli 10 til 20 prósentum tímans í að ræða Trump, Musk og Úkraínu. Ég ímynda mér að þetta eigi við um nær allar samræður Vest­ur­landa þessa dagana, hvenær sem tveir eða fleiri mætast snúist 10 til 20 prósent orða þeirra um þessi eða þetta viðfangs­efni, það fjöl­þætta, yfir­stand­andi rof sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir. Eins konar samræðu­skattur sem þeir heimta, ofan á annað.

——

En dagur­inn hófst ekki á því. Dagur­inn hófst á skjá­skotum. Það er að segja, ég fletti gegnum fréttir á símanum mínum – ég get varla ímyndað mér asna­legri byrjun á nokkrum degi og þó byrja ég alla daga mína einmitt svona, ég fletti gegnum fréttir á símanum mínum. Áður en ég fer í sturtu, áður en ég fæ mér kaffi, áður en ég ver tíma með mínum nánustu. Áður en ég fæ mér egg. „Ísland gæti orðið leið­andi í notkun hugvíkk­andi efna“ sagði fyrir­sögn á Vísi. „US has suspended all military aid to Ukraine“ sagði fyrir­sögn The Guar­dian. Athygl­is­skatt­ur­inn.

——

Hangir þetta tvennt einhvern veginn saman? LIggur hagkvæm­asta leiðin undan þessum þráláta samræðu- og athygl­is­skatti gegnum hugvíkk­andi efni?

Ég lái ekki neinum sem langar að kúpla út um þessar mundir, á einn hátt eða annan. Hver gæti láð öðrum það, eða sjálfum sér? Fyrir löngu síðan heill­að­ist ég af heim­ilda­efni um LSD, frásögnum af tilraunum sem gerðar voru á banda­rískum hermönnum, til dæmis, sem köst­uðu af sér fötum, hlupu upp í trjá­greinar og tjill­uðu þar, undir áhrifum efnis­ins, í stað þess að fylgja fyrir­mælum. Ég sé hvernig heim­ur­inn gæti batnað ef allir hermenn væru sendir á tripp.

En ef það er borin von, og það eru bara allir hinir sem trippa á meðan herir heims­ins fara sínu fram? Er það heppilegt?

——

Daginn áður birtu fjöl­miðlar frétt um að þing­maður Samfylk­ing­ar­innar vilji ganga í ESB. Fyrir­sögn Vísis: „Vill flýta þjóðar­at­kvæða­greiðslu um aðild að ESB“. Þar var vitnað í Dag B. Eggerts­son, og meðal annars haft eftir honum: „Það er ljóst að þessi staða er að breyt­ast hratt og hún getur haft mikil áhrif.“ Frétta­text­inn var óljós, eða þá lestur minn, mér þótti að minnsta kosti ekki skýrt hvort Dagur hefði sagt þetta í viðtali við blaða­mann eða skrifað það í grein. Mér fannst eins og ég hefði séð minnst á nýbirta grein um sama efni og reyndi nú í kvöld að finna hana með því að gúgla þessi orð: „Það er ljóst að þessi staða er að breyt­ast hratt og hún getur haft mikil áhrif“. Google reynd­ist aðeins kann­ast við eitt tilfelli þeirra í þess­ari röð, það var í frétt­inni sem ég hafði þá þegar lesið. Ég próf­aði að stytta leit­ar­streng­inn í „Það er ljóst að þessi staða er að breyt­ast hratt“ en fékk sömu niður­stöðu: hvergi nema í þess­ari einu frétt höfðu þessi orð birst í þess­ari röð. Undr­andi á því að svo fáfengi­leg full­yrð­ing væri í reynd svona fágæt stytti ég hana enn og gúgl­aði: „þessi staða er að breyt­ast hratt“. Niður­staðan var aftur sú sama: að aðeins Dagur B. Eggerts­son hefði látið þessi orð frá sér, og þau hefðu hvergi birst nema í þess­ari tilteknu frétt Vísis.

——

Ég átta mig ekki á tölfræð­inni, veit ekki hvort það er vegna þess hvað íslenskt málsam­fé­lag er lítið eða hvort það er vegna þess hvað tungu­mál sem slík bjóða upp á óend­an­legan fjölda samsetn­inga, en alltaf kemur það mér á óvart hversu einfaldar, næstum sjálf­sagðar setn­ingar geta virst vera alveg nýjar af nálinni.

Það kom mér minna á óvart þegar ég gáði hversu oft því hefur verið spáð að Ísland gæti orðið leið­andi á einhverju sviði. „Ísland gæti orðið leið­andi“ sló ég inn á Google. Efst stóð nýja fréttin, Ísland gæti orðið leið­andi í notkun hugvíkk­andi efna. En lífrænt Ísland gæti líka orðið leið­andi á heimsvísu, Ísland gæti orðið leið­andi í bylt­ing­unni sem fram undan er í þess­ari tækni­þróun, Ísland gæti orðið leið­andi afl á norð­ur­slóðum, Ísland gæti orðið leið­andi á sviði tækni­væddrar heil­brigð­is­þjón­ustu á komandi árum, Ísland gæti orðið leið­andi til friðar og lýðræð­is­þró­unar í heim­inum, Ísland gæti orðið leið­andi á svið tækni­þró­unar í þess­ari ungu en ört vaxandi iðngrein, Ísland gæti orðið leið­andi í heim­inum með því að búa til besta starfs­um­hverfi heims fyrir sprota­fyr­ir­tæki og Ísland gæti orðið leið­andi þekk­ing­arafl innan ESB þegar kemur að stjórn fisk­veiða.

Ísland gæti orðið leið­andi. En þessi staða er að breyt­ast hratt.