Í dag átti ég fund með vini mínum og samverkamanni. Þetta var góður fundur, og ekki að því undanskildu að líklega vörðum við á milli 10 til 20 prósentum tímans í að ræða Trump, Musk og Úkraínu. Ég ímynda mér að þetta eigi við um nær allar samræður Vesturlanda þessa dagana, hvenær sem tveir eða fleiri mætast snúist 10 til 20 prósent orða þeirra um þessi eða þetta viðfangsefni, það fjölþætta, yfirstandandi rof sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir. Eins konar samræðuskattur sem þeir heimta, ofan á annað.
——
En dagurinn hófst ekki á því. Dagurinn hófst á skjáskotum. Það er að segja, ég fletti gegnum fréttir á símanum mínum – ég get varla ímyndað mér asnalegri byrjun á nokkrum degi og þó byrja ég alla daga mína einmitt svona, ég fletti gegnum fréttir á símanum mínum. Áður en ég fer í sturtu, áður en ég fæ mér kaffi, áður en ég ver tíma með mínum nánustu. Áður en ég fæ mér egg. „Ísland gæti orðið leiðandi í notkun hugvíkkandi efna“ sagði fyrirsögn á Vísi. „US has suspended all military aid to Ukraine“ sagði fyrirsögn The Guardian. Athyglisskatturinn.
——
Hangir þetta tvennt einhvern veginn saman? LIggur hagkvæmasta leiðin undan þessum þráláta samræðu- og athyglisskatti gegnum hugvíkkandi efni?
Ég lái ekki neinum sem langar að kúpla út um þessar mundir, á einn hátt eða annan. Hver gæti láð öðrum það, eða sjálfum sér? Fyrir löngu síðan heillaðist ég af heimildaefni um LSD, frásögnum af tilraunum sem gerðar voru á bandarískum hermönnum, til dæmis, sem köstuðu af sér fötum, hlupu upp í trjágreinar og tjilluðu þar, undir áhrifum efnisins, í stað þess að fylgja fyrirmælum. Ég sé hvernig heimurinn gæti batnað ef allir hermenn væru sendir á tripp.
En ef það er borin von, og það eru bara allir hinir sem trippa á meðan herir heimsins fara sínu fram? Er það heppilegt?
——
Daginn áður birtu fjölmiðlar frétt um að þingmaður Samfylkingarinnar vilji ganga í ESB. Fyrirsögn Vísis: „Vill flýta þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB“. Þar var vitnað í Dag B. Eggertsson, og meðal annars haft eftir honum: „Það er ljóst að þessi staða er að breytast hratt og hún getur haft mikil áhrif.“ Fréttatextinn var óljós, eða þá lestur minn, mér þótti að minnsta kosti ekki skýrt hvort Dagur hefði sagt þetta í viðtali við blaðamann eða skrifað það í grein. Mér fannst eins og ég hefði séð minnst á nýbirta grein um sama efni og reyndi nú í kvöld að finna hana með því að gúgla þessi orð: „Það er ljóst að þessi staða er að breytast hratt og hún getur haft mikil áhrif“. Google reyndist aðeins kannast við eitt tilfelli þeirra í þessari röð, það var í fréttinni sem ég hafði þá þegar lesið. Ég prófaði að stytta leitarstrenginn í „Það er ljóst að þessi staða er að breytast hratt“ en fékk sömu niðurstöðu: hvergi nema í þessari einu frétt höfðu þessi orð birst í þessari röð. Undrandi á því að svo fáfengileg fullyrðing væri í reynd svona fágæt stytti ég hana enn og gúglaði: „þessi staða er að breytast hratt“. Niðurstaðan var aftur sú sama: að aðeins Dagur B. Eggertsson hefði látið þessi orð frá sér, og þau hefðu hvergi birst nema í þessari tilteknu frétt Vísis.
——
Ég átta mig ekki á tölfræðinni, veit ekki hvort það er vegna þess hvað íslenskt málsamfélag er lítið eða hvort það er vegna þess hvað tungumál sem slík bjóða upp á óendanlegan fjölda samsetninga, en alltaf kemur það mér á óvart hversu einfaldar, næstum sjálfsagðar setningar geta virst vera alveg nýjar af nálinni.
Það kom mér minna á óvart þegar ég gáði hversu oft því hefur verið spáð að Ísland gæti orðið leiðandi á einhverju sviði. „Ísland gæti orðið leiðandi“ sló ég inn á Google. Efst stóð nýja fréttin, Ísland gæti orðið leiðandi í notkun hugvíkkandi efna. En lífrænt Ísland gæti líka orðið leiðandi á heimsvísu, Ísland gæti orðið leiðandi í byltingunni sem fram undan er í þessari tækniþróun, Ísland gæti orðið leiðandi afl á norðurslóðum, Ísland gæti orðið leiðandi á sviði tæknivæddrar heilbrigðisþjónustu á komandi árum, Ísland gæti orðið leiðandi til friðar og lýðræðisþróunar í heiminum, Ísland gæti orðið leiðandi á svið tækniþróunar í þessari ungu en ört vaxandi iðngrein, Ísland gæti orðið leiðandi í heiminum með því að búa til besta starfsumhverfi heims fyrir sprotafyrirtæki og Ísland gæti orðið leiðandi þekkingarafl innan ESB þegar kemur að stjórn fiskveiða.
Ísland gæti orðið leiðandi. En þessi staða er að breytast hratt.