Heyrðu já, eitt enn

14.3.2025 ~ 6 mín

Það hefur leitað á mig ljóð­lína undan­farið, eða nokkrar línur, við hvert tæki­færið á fætur öðru. Þrjár línur, nánar til tekið – nei, fjórar – lokalínur ljóðs­ins What is Coming, after Leon­ard Cohen. Þegar ég fletti því upp les ég að það hafi komið út í bókinni The Flame árið 2018, að skáld­inu látnu … en samt er ég nokkuð viss um að ég hafi fyrst séð það nokkru fyrr. Jafn­vel mörgum árum fyrr. Kannski hafði það áður birst á öðrum vett­vangi. Og kannski misminnir mig. En lokalín­urnar eru svona:

oh and one more thing
you aren’t going to like
what comes after
America

Banda­ríkin eru, hafa verið, skelfi­leg, á ótal vegu. Það þýðir ekki, eitt og sér, að hvað sem er handan við hornið verði skárra. Ef við erum að horfa upp á endi­lok Banda­ríkj­anna í þeirri mynd sem við höfum þekkt þau, þá lítur hvað sem er handan við hornið raunar út fyrir að vera á margan hátt umtals­vert síðra. Eins og Kristín Svava orti í fundnu ljóði, batt í orð frá veður­fræð­ingi: „Dagur­inn á morgun verður verri en það þýðir ekki að dagur­inn í dag sé ekki slæmur.“

——

Stundum finnst mér vanta upp á að … á ég að segja vinstri­menn, við vinstri­menn, vinstrið, eða á ég að segja sósí­al­istar? Kommar, jafn­vel? – Það mengi fólks sem lætur sig varða gagn­rýni á kapí­tal­ismann frá vinstri, í nafni jafn­að­ar­hug­sjónar, hvað sem það vill kalla sig – að það mengi og samtal þess taki alvar­lega það grund­vall­ar­at­riði í hugsun Karls Marx að sjá og hugsa tvöfalt. Að sjá bæði þær stór­stígu fram­farir sem kapí­tal­ism­inn hefur falið í sér og þá nýju áþján sem hann hefur í för með sér. Að sjá bæði takmark­anir þess sem er og mögu­leik­ann sem það ber með sér. Ég veit að allir kinka kolli við því – en þetta er ekki auka­at­riði til að skauta hjá heldur lykil­at­riði sem felur í sér flókna kröfu.

Eins og haft hefur verið eftir Marx á einn og annan hátt: ef við skyldum álpast til að slátra kapí­tal­ism­anum án þess að hafa til reiðu annað, betra kerfi sem leysir það af hólmi og grípur fólk, þá sitjum við uppi með bein valda­tengsl milli fólks í formi yfir­boð­ara og undir­sáta, í stað­inn fyrir þau þó abstrakt­ari valda­tengsl sem felast í milli­göngu fjár­magns. Beinu, gömlu valda­tengslin eru ekki betri. Þau eru umtals­vert meira niður­lægj­andi fyrir þau sem neyð­ast til að lifa innan þeirra.

——

Allar fasískar hreyf­ingar eru að einhverju leyti, bæði í orði og æði, and-kapí­talískar. Allar vilja þær, í einhverjum tilfellum, stórum eða smáum, víkja valdi fjár­magns­ins til hliðar, til að ryðja til rúms beinni undir­skipun fólks undir annað fólk. Það virð­ist raunar vera fyrsta innri togstreitan sem birt­ist í MAGA-hreyf­ing­unni í Banda­ríkj­unum: í krafti þess að setja Banda­ríkin í fyrsta sæti er hreyf­ingin áköf um að takmarka fjölda innflytj­enda, þar á meðal aðflutt vinnu­afl. Sem eigandi stórra tæknifyr­ir­tækja vill Elon Musk þó halda opnu fyrir þá sérfræð­inga sem einmitt slík starf­semi þarf á að halda. Einhverjir hafa raunar haldið því fram að það hafi verið til að gera fasist­unum ljóst að hann væri eftir sem áður þeirra maður sem Musk lét frá sér kveðju þeirra á sviði á innsetn­ing­ar­degi forset­ans: með þeirri bend­ingu og opnun á forboðnar tákn­myndir hafi hann viljað kaupa frið innan hreyf­ing­ar­innar, fá frið fyrir undan­þágu útlensku tækn­isér­fræð­ing­anna sinna með því að ganga lengra en aðrir í að lýsa holl­ustu við megin­regl­una. Og kannski tekist það.

Viðskipta­hindr­anir, tollamúrar, takmark­anir á innflutn­ing starfs­fólks og útvistun verk­efna milli landa, allt þetta er að einhverju leyti í andstöðu við það sem auðmagnið eitt og sér myndi helst vilja. Að vera and-kapí­talisti er ekki sjálf­krafa vinstri­stefna. Að vera sósí­alisti, eða segj­ast vera sósí­alisti, er ekki einu sinni sjálf­krafa vinstri­stefna. Vinstrið er alþjóða­sinnað eða það er ekki neitt.

——

Í tali af þessum toga rekst maður fljótt á takmark­anir tungu­máls­ins, meðal annars í krafti hefðar og kurt­eisis­venja. Þannig þykja það sjálf­sagðir mannasiðir, að minnsta kosti í íslensku ritmáli, að forð­ast að mestu leyti orð af erlendum orðstofnum. Þegar ég segi alþjóða­sinnað meina ég ekki bara alþjóða­sinnað. Orðið sem vantar hér er universal­ismi. Þetta hugtak á sér sögu og samhengi sem fylgir ekki ef maður reynir að koma því kauðs­lega fyrir á forsendum hreintungu­stefnu. Algild­is­hyggja? Hver kærir sig um algild­is­hyggju? Það hljómar hræðilega.

Universal­ismi – þeir eru til sem segja hana upprunna í kristni, hjá Páli postula, til dæmis þegar hann segir: „Hér er hvorki Gyðingur né Grikki, þræll né frjáls maður, karl né kona.“ Aðrir líta á Kant sem, ef ekki upphafs­reit, þá að minnsta kosti kenni­leiti, og kannski hið merk­asta, í sögu universal­ism­ans, í krafti þeirrar hugmyndar að öll veröldin sé bundin einu siðferð­is­lög­máli sem leiði svo að segja af sjálfu sér og hljóti að vera hið sama fyrir allar vits­muna­verur. Rétt­ar­ríkið myndu aðrir tilgreina og þá hugmynd að allir skuli jafnir fyrir lögunum, og enn aðrir segja að hin enn óupp­fyllta næsta birt­ing­ar­mynd þess­arar grund­vall­ar­hug­myndar sé komm­ún­ismi – það sem aðgreini komm­ún­isma frá öðrum sósí­al­isma sé raunar einmitt það að komm­ún­ismi feli í sér kröfu fyrir hönd allra, á meðan aðrar sósíal­ískar hreyf­ingar og hugmyndir geti hæglega verið bundnar við tiltekna staði og hópa. Svo er jafn­vel hægt að halda þessu öllu fram í einu.

——

Þegar nánar er að gáð sé ég að ljóðið hans Cohen ber lengri titil: What is Coming 2.16.03. 16. mars 2003. Það er mánuði eftir að Banda­ríkin söfn­uðu hundrað þúsund hermönnum í Kúveit til að ryðj­ast inn í Írak, eða fjórum dögum áður en innrásin sjálf hófst. Í Þýskalandi, Frakklandi og víðar mótmæltu millj­ónir þeim áformum. Og Cohen orti:

what is coming
ten million people
in the street
cannot stop

En hann var ekki á því að almenn­ingur væri einn um að vera svo valdlaus:

what is coming
the American Armed Forces
cannot control
the Presi­dent
of the United States
and his coun­sel­ors
cannot conceive
initiate command
or direct

Ég veit ekki hvort það er endi­lega rétt að væna hann um örlaga­hyggju, þegar hann segir síðan allt bera að sama brunni:

everything
you do
or refrain from doing
will bring us
to the same place
the place we don’t know

Það þarf ekki að vera að í þess­ari óvissu berg­máli orð Donalds Rums­felds, varn­ar­mála­ráð­herra Banda­ríkj­anna sem ári áður hafði svarað spurn­ingu blaða­manns um hina meintu ógn af Írak með því að aðgreina það sem við vitum að við vitum, það sem við vitum að við vitum ekki og það sem við vitum ekki að við vitum ekki. Ef áfanga­stað­ur­inn sem bíður okkar sama hvað er óþekktur má hugs­an­lega líta á það sem spádóm um rof í fram­vind­una og söguna, punkt­inn þar sem allir mögu­leikar opnast, frekar en þá einfald­ari forlaga­trú að allt sé þegar ákveðið. Að allir mögu­leikar opnist er hins vegar ekki bjart­sýni, út af fyrir sig.

your anger against the war
your horror of death
your calm stra­tegies
your bold plans
to rearrange
the middle east
to overt­hrow the dollar
to esta­blish
the 4th Reich
to live forever
to silence the Jews
to order the cosmos
to tidy up your life
to improve religion
they count for nothing

Áform þín eru einskis virði – að því leyti eru þau öll í sama rusl­flokknum, hvort sem þau snúast um að þagga niður í gyðingum, forð­ast stríð, reisa fjórða ríkið, eða fara oftar í ræktina.

you have no under­st­and­ing
of the consequ­ences
of what you do

segir skáldið næst, án þess að biðja þó Drottin um að fyrir­gefa þér það. Þú hefur engan skiln­ing. Og þá loks koma áður­nefndar lokalínur:

oh and one more thing
you aren’t going to like
what comes after
America

——

Þér á ekki eftir að líka við það sem tekur við af Bandaríkjunum.