Fyrir nokkrum árum síðan heyrði ég viðtal við konu, líklega var það á annarri hvorri útvarpsstöð ríkisins, um einhvers konar átak sem þá var hafið til að hvetja fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en það sendi tölvupóst til að segja hluti eins og „takk“. Inntak viðtalsins var að kostnaðurinn, bæði fjárhagslegur og umhverfislegur, við rekstur netþjóna væri svo gríðarlegur, umfangið svo mikið, að litlar breytingar á venjum á við að sleppa því að segja takk gætu sparað formúur, heilt yfir. Á sama hátt og ég las það í bæklingi frá umhverfisverndarsamtökum einhvern tíma um 1990 að öllum bæri skylda til að gæta að því að eldhúskranar leki ekki, vegna vatnsskorts í veröldinni, droparnir telji. Mér varð afar umhugað um að foreldrar mínir gættu að krönunum.
Ég geri ráð fyrir að hverjum sem stóðu að átakinu um að fólk skyldi hætta að segja takk hafi verið jafn ljóst og mér að lagið sem maður spilar á Spotify án þess að leggja eyrun sérstaklega við sóar áreiðanlega meira afli en nokkur takk-póstur, hvað þá auglýsingarnar sem fylgja okkur um alla netmiðla, hvað þá netmiðlarnir sjálfir – kattavídeó, gvuðminngóður, TikTok var líklega enn ekki til þegar ég heyrði þetta viðtal en Instagram var það, efnahagslegar afleiðingar af tásumyndum frá Tene eru klárlega fjölþættar.
Ég geri ráð fyrir að þau hafi vitað það allt, ég á við: líklega var meiningin að baki átakinu ekki beinlínis sú að kenna fólki að hætta að segja takk, heldur að nota þetta absúrd dæmi, þetta algjöra smáræði, til að vekja meðvitund um allt hitt, hvetja fólk til að láta af netsóun yfirleitt. Sem er margfaldlega og þráfaldlega borin von, óháð því hvort ástæða er til, ár fyrir ár heldur áfram að þrengjast um netleysið í tilverunni, samskipti utannets halda áfram að skreppa saman, við lifum í kóðuðu umhverfi, lifum gegnum netþjóna. En átakið heppnaðist að því leyti að nú nagar samviskan mig á meðan.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér vegna fréttar sem fjöldi miðla birti í dag, annan í páskum 2025, þar sem haft er eftir Sam Altman, forstjóra OpenAI, að það kosti fyrirtækið hans tugmilljónir dollara, milljarða króna, hversu mörgum er tamt er að segja „takk“ og „ef þú vildir vera svo vænn“ í samskiptum við vitvélina ChatGPT. Þessi ummæli Altmans reyndust vera svar við vangaveltu frá notanda á X: „Ég velti fyrir mér hversu miklum pening OpenAI hefur tapað í rafmagnskostnað vegna fólks sem segir „please“ og „thank you“ við líkönin þeirra,“ skrifaði sá. „Tugmilljónum dollara“ svaraði Altman, „vel varið – maður veit aldrei“.
„Well spent—you never know“. Líklega vísar Altman hér til þeirrar hugmyndar sem birtist víða undanliðin misseri, í ótal bröndurum, tilsvörum og hálfkveðnum vísum með mátulegu glotti, að einn daginn, kannski áður en líður á löngu, muni vélarnar taka völdin og þá verði eins gott fyrir hvern sem vill forðast útrýmingu að hafa að minnsta kosti komið skikkanlega fram við þær.
——
Norðursnjáldra rak á land í Njarðvík.
——
Lóum og spóum fer fækkandi. Ef ég á einhverja mynd af hamingju … nei, ég veit ekki hvort það er orðið. Ef ég á einhverja mynd af friði, kannski, eða einhvers konar hljóðlátri dýrð þess að vera bara til, án frekari málalenginga, þá inniheldur hún sönginn frá báðum þessum fuglum. Í óvissum takti, með löngum þögnum á milli. Og hrossagauk. Alltaf heyrist líka í hrossagauk í hæfilegum fjarska. En flugum um leið, friðurinn var aldrei alveg óþægindalaus.
Stund án óþæginda, hvort hún er til? Ég veit ekki.
Þegar maður er kominn á vissan aldur, þá er maður útlendingur, innflytjandi í samtíma sinn. Fólk sem elst ekki upp við hljóðin í einmitt þessum þremur fuglum elst upp við eitthvað annað í staðinn, sem mun svo víkja líka. Ég ætla ekki að gefa því meira vægi en tilefni er til. Það er að segja, ég vil ekki líta á svona tilfallandi aðstæður sem neitt absólút. Hljóðin í 56K mótöldum, frá því fyrir tíma DSL og ljósleiðara, það má sakna þeirra líka, svo langt sem það nær. Einu sinni hélt ég að ég saknaði hljóðanna frá ritvélum, svo fékk ég mér ritvél og komst að því að mig misminnti, í þeim hljóðláta samtíma sem hafði rutt sér til rúms í millitíðinni reyndist ritvélin svo hávær að ég hefði eins getað ræst álver í stofunni hjá mér. Grjótmulningsvél. Almennt séð, á ég við, felli ég mig við að hlutir breytast, jafnvel þeir sem um hríð virðast óhagganlegir. En í einhverjum innilegri afkimum er það undarleg tilhugsun, undarleg tilfinning, ef til þess kæmi að dóttir mín nyti ekki einn daginn einmitt þessarar tilteknu hljóðvistar. Fuglanna, á ég við, skítt með tækin.
——
Innflytjandi í samtímann – það læðast að mér óþægindi þessa dagana, grunur um að ég lifi við gildismat sem sé hugsanlega ekki til. Ég viti ekki einu sinni hvað það er sjálfur. Þar væri þá munurinn á mér og aðalpersónuninni í Ghost Dog, kvikmynd Jim Jarmusch. Forest Whitaker lék aðalhlutverkið í myndinni, mann sem býr í bandarískri stórborg undir aldamótin 2000 en lifir eftir kóða samúræjanna, japanskra vígasveita, eins og hann hefur geymst í bók frá 17. öld. Lífheimurinn sem kóðinn tilheyrði er löngu horfinn en kóðinn sjálfur er þó til. Mig rámar í að hafa haft hugmynd um einhvers konar viðmið, jafnvel gildismat, en grunar nú að það hafi verið tálsýn allan tímann, það hafi aldrei verið til, frekar en sinfónía sem mann getur dreymt að maður semji en gufar ekki bara upp þegar maður vaknar heldur var aldrei þarna.
——
Takk, Pope Francis.