Sumarið 1757 báðu sýslumenn um leyfi til að hengja landsins lausgangara en var í staðinn gert að reisa tugthús. Næstu hálfu öld hírðust konur og karlar í Tugthúsinu við Arnarhól fyrir margvísleg brot við hörmulegar aðstæður. Löngu síðar hefur húsið virðulegra hlutverk en yfir því er enn ekki ró. Getur hugsast að ónotin í húsinu stafi af óeirð einhvers sem þar dvaldi og dó?
Tugthúsið eftir Hauk Má Helgason er áhrifamikil skáldsaga sem varpar nýju ljósi á lífið í Reykjavík á seinni hluta átjándu aldar, aumustu þegna landsins og valdhafana sem sýsluðu með örlög þeirra.
– Af bókarkápu.
Umsagnir
★★★★★
„Verk hans er mikið afrek, sá þétti frásagnarháttur sem hann kýs magnast hægt og stillilega eins og hert sé á þumalskrúfu.“
– Páll Baldvin Baldvinsson / Stundin
★★★★½
„Tugthúsið er sérlega vel upp byggð saga, frásagnarstíllinn þjáll og grípandi og persónusköpun góð.“
– Páll Egill Winkel / Morgunblaðið
„Mögnuð lýsing á fátækt og réttleysi Íslendinga á seinni helmingi 18. aldar og við upphaf þeirrar 19. Hagsmunagæslu, fólsku og óþverraskap yfirvalda lýst af hreinskilni.“
– Kristján Jóhann Jónsson / Fréttablaðið
„Ég er ofboðslega hrifin af þessari bók! Þetta er bók sem ég á eftir að lesa aftur.“
– Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan
„Mjög áleitin bók … Rosalega fjörugt persónugallerí.“
– Egill Helgason / Kiljan
„Það er eins og saga hússins sé allegoría fyrir tilurð okkar sem nútímaþjóðar og það er líka draugurinn í sögunni. Hvernig má það vera að okkar fyrsta skref inn í nútímann hafi verið byggt á slíkri kúgun, eymd og volæði af manna völdum?“
– Gauti Kristmannsson / Víðsjá
„Óvenjulegasta og kraftmesta bók þessa flóðs og væri það áfram þótt þú tækir með síðustu tíu. Og næstu tíu.“
– Eiríkur Örn Norðdahl / Fjallabaksleiðin
„Tugthúsið dregur til ljóssins grimmdarverk í forsögu lýðveldisins. Bókin er ógleymanlegur minnisvarði reistur fólki sem yfirvöld fórnuðu. Og níðstöng reist því yfirvaldi.“
– Kristín Ómarsdóttir
„Djúp og óvenjuleg saga.“
– Bubbi Morthens
Um útgáfuna
1. prentun október 2022.
2. prentun desember 2022.
Mál og menning gaf bókina út, undir ritstjórn Sigþrúðar Silju Gunnarsdóttur.
Harðspjaldaútgáfan fæst í öllum helstu bókaverslunum, þar á meðal í Bókabúð Forlagsins, Pennanum-Eymundsson, Bóksölu stúdenta og Bókakaffinu, að ógleymdum bókasöfnum landsins.
Í Bókabúð Forlagsins má einnig nálgast epub-rafbókarútgáfu en Kindle-útgáfa Tugthússins fæst á Amazon.com.
Þá fæst Tugthúsið sem hljóðbók. Upplestur hennar annaðist Pétur Eggerz. Upptaka, hljóðblöndun, hljóðvinnsla og annar frágangur var í höndum Sindra Freys.