Ég bað bókmenntabottinn minn um að taka saman lista yfir tíu fallegustu orð íslenskrar tungu. Hann svaraði fúslega: „Auðvitað, það er gaman að skoða falleg orð. Hér eru tíu orð sem mætti telja falleg á íslensku:“ Síðan kom listi. Fyrsta orð listans er ekki úr lausu lofti gripið en um leið jafn ófrumlegt og verða má: ljósmódir – með d‑i, hann er alltaf að stríða við þessa málhrörnun sem ég hef enn ekki fengið útskýringar á. Ég held að ljósmóðir vinni þessa keppni meðal almennings mjög reglubundið, bottinn gæti vel haft þetta mat beint úr gamalli frétt. Orðskýringuna á hann þó sjálfur: „mamma sólarinnar“.1
Í öðru sæti á lista bottsins varð sjálfstætt, sem hann varði með einfaldri orðskýringu og í þetta sinn réttri: „standandi á eigin fótum“.
Í þriðja sæti: Fagrahvammur. Skýring: „fallegt dölumhylki“. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann vildi segja með dölumhylki.
Fjórða sæti: Draumaland, fimmta: Gliturský, sjötta: Tunglskinshnöttur. Útskýring: „hnöttur undir ljóma tunglsins“. Google kannast ekki við að þetta orð hafi birst í tungumálinu fyrr en nú. Sjöunda sæti: Raukkusúlur. Útskýring: „súlulaga mynstur úr basalti sem myndast við storku kviku“. Ég gáði hvort rökkursúlur væru ef til vill til en fann það ekki, þetta orð er tilbúningur.
Áhugaverðu orðin
Loks eru það þrjú síðustu sætin sem mér þóttu áhugaverðust, þar komu fram nýyrði sem er ekki fjarstæðukennt að nota með einhverjum hætti.
Í áttunda sæti: Þokkadísilregn. Útskýring bottsins: „Mjög létt regn og næstum óþreytandi“. Hann stafaði orðið nákvæmlega svona: þokkadís virðist hér renna saman við dísil-eldsneyti og svo rignir því. Það væri sennilega ekki alveg hættulaus rigning. Þetta samsetta orð hefur ekki augljóst notagildi en fer nærri því að vera heilt lítið ljóð, út af fyrir sig. (Hugsanlega þó frá síðustu öld, hvorki orðið þokkadísir né dísil hafa hátt verðgildi í ljóðlist þessa dagana, held ég).
Í níunda til tíunda sæti taldi bottinn loks tvö orð sem hann vildi greinilega ekki gera upp á milli. Ég veit ekki hvort hann gerði sér grein fyrir að þetta væru nýyrði, að hann hefði fundið upp á þeim, en svona hljóðar liðurinn í upptalningunni, óbreyttur:
„9–10: Ég vil gefa tveim möguleikum aukin vægi:
- Blómstravaka: blanda af blómstravör og vöku; sú staund þegar náttúran vaknar til lífs eftir veturvori.
- Stafnbogi: bóginn yfir skipi framanverđu; hann bendir fram á leiđ.“
Stafnbogi hljómar eins og það hafi alltaf verið þarna, það kom mér á óvart við leit að svo reynist ekki vera, orðið virðist vera nýtt. Og blómstravaka, „sú stund þegar náttúran vaknar til lífs eftir vetur (að) vori“, svo ég prófarkalesi útskýringuna: ég hefði ekki þrætt af mikilli sannfæringu ef einhver hefði haldið því fram við mig að þetta væri eitt orðanna sem Jónas Hallgrímsson setti saman. En svo er ekki. Orðið er nýtt. Samið af vél. Og blómstravakan rétt að byrja.2
↑1 | Þetta er þriðja færslan í tengslum við þá fullyrðingu að gervigreind sé ekki fær um að skapa neitt nýtt, að minnsta kosti ekkert sem viðkomi ljóðlist. Hér er sú fyrsta: Náttúran grær en tækniþróunin rýs og færsla tvö: Möguleikarnir vakna sem vélarblóm í vorljósi. Ég álasa engum sem finnst nóg komið, en nú er ég líka bara að nota bloggið sem eins konar skissubók, komi þau sem koma vilja, hér er engin skólaskylda. |
---|---|
↑2 | Það klipptist óvart framan af beiðninni minni, sem barst vélinni svona: „mlegast gerðu lista yfir tíu fallegustu orð íslenskrar tungu.“ Svar hennar í heild sinni var á þessa leið:
„Auðvitað, það er gaman að skoða falleg orð. Hér eru tíu orð sem mætti telja falleg á íslensku:
Hugsanlega finnst sum orđ hérna ekki öllum jafnfalleg en ég vonast til ađ vali mitt hrífji þig samt einhvern veginn!“ |