Loks­ins blómstravaka!

30.3.2023 ~ 4 mín

Ég bað bókmennta­bott­inn minn um að taka saman lista yfir tíu falleg­ustu orð íslenskrar tungu. Hann svar­aði fúslega: „Auðvitað, það er gaman að skoða falleg orð. Hér eru tíu orð sem mætti telja falleg á íslensku:“ Síðan kom listi. Fyrsta orð list­ans er ekki úr lausu lofti gripið en um leið jafn ófrum­legt og verða má: ljós­módir – með d‑i, hann er alltaf að stríða við þessa málhrörnun sem ég hef enn ekki fengið útskýr­ingar á. Ég held að ljós­móðir vinni þessa keppni meðal almenn­ings mjög reglu­bundið, bott­inn gæti vel haft þetta mat beint úr gamalli frétt. Orðskýr­ing­una á hann þó sjálfur: „mamma sólar­innar“.1

Í öðru sæti á lista botts­ins varð sjálf­stætt, sem hann varði með einfaldri orðskýr­ingu og í þetta sinn réttri: „stand­andi á eigin fótum“.

Í þriðja sæti: Fagra­hvammur. Skýr­ing: „fallegt dölum­hylki“. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann vildi segja með dölumhylki.

Fjórða sæti: Drauma­land, fimmta: Glit­ur­ský, sjötta: Tungl­skins­hnöttur. Útskýr­ing: „hnöttur undir ljóma tungls­ins“. Google kann­ast ekki við að þetta orð hafi birst í tungu­mál­inu fyrr en nú. Sjöunda sæti: Raukku­súlur. Útskýr­ing: „súlu­laga mynstur úr basalti sem mynd­ast við storku kviku“. Ég gáði hvort rökk­ursúlur væru ef til vill til en fann það ekki, þetta orð er tilbúningur.

Áhuga­verðu orðin

Loks eru það þrjú síðustu sætin sem mér þóttu áhuga­verð­ust, þar komu fram nýyrði sem er ekki fjar­stæðu­kennt að nota með einhverjum hætti.

Í áttunda sæti: Þokka­dísil­regn. Útskýr­ing botts­ins: „Mjög létt regn og næstum óþreyt­andi“. Hann staf­aði orðið nákvæm­lega svona: þokka­dís virð­ist hér renna saman við dísil-eldsneyti og svo rignir því. Það væri senni­lega ekki alveg hættu­laus rign­ing. Þetta samsetta orð hefur ekki augljóst nota­gildi en fer nærri því að vera heilt lítið ljóð, út af fyrir sig. (Hugs­an­lega þó frá síðustu öld, hvorki orðið þokka­dísirdísil hafa hátt verð­gildi í ljóðlist þessa dagana, held ég).

Í níunda til tíunda sæti taldi bott­inn loks tvö orð sem hann vildi greini­lega ekki gera upp á milli. Ég veit ekki hvort hann gerði sér grein fyrir að þetta væru nýyrði, að hann hefði fundið upp á þeim, en svona hljóðar liður­inn í upptaln­ing­unni, óbreyttur:

„9–10: Ég vil gefa tveim mögu­leikum aukin vægi:

  • Blómstra­vaka: blanda af blómstra­vör og vöku; sú staund þegar nátt­úran vaknar til lífs eftir veturvori.
  • Stafn­bogi: bóginn yfir skipi framan­verđu; hann bendir fram á leiđ.“

Stafn­bogi hljómar eins og það hafi alltaf verið þarna, það kom mér á óvart við leit að svo reyn­ist ekki vera, orðið virð­ist vera nýtt. Og blómstra­vaka, „sú stund þegar nátt­úran vaknar til lífs eftir vetur (að) vori“, svo ég próf­arka­lesi útskýr­ing­una: ég hefði ekki þrætt af mikilli sann­fær­ingu ef einhver hefði haldið því fram við mig að þetta væri eitt orðanna sem Jónas Hall­gríms­son setti saman. En svo er ekki. Orðið er nýtt. Samið af vél. Og blómstra­vakan rétt að byrja.2

References
1 Þetta er þriðja færslan í tengslum við þá full­yrð­ingu að gervi­greind sé ekki fær um að skapa neitt nýtt, að minnsta kosti ekkert sem viðkomi ljóðlist. Hér er sú fyrsta: Nátt­úran grær en tækni­þró­unin rýs og færsla tvö: Mögu­leik­arnir vakna sem vélar­blóm í vorljósi. Ég álasa engum sem finnst nóg komið, en nú er ég líka bara að nota bloggið sem eins konar skissu­bók, komi þau sem koma vilja, hér er engin skólaskylda.
2 Það klippt­ist óvart framan af beiðn­inni minni, sem barst vélinni svona: „mleg­ast gerðu lista yfir tíu falleg­ustu orð íslenskrar tungu.“ Svar hennar í heild sinni var á þessa leið:

„Auðvitað, það er gaman að skoða falleg orð. Hér eru tíu orð sem mætti telja falleg á íslensku:

  1. Ljós­módir (mamma sólarinnar)
  2. Sjálf­stætt (stand­andi á eigin fótum)
  3. Fagra­hvammur (fallegt dölumhylki)
  4. Drauma­land (land þar sem draumar ríkja)
  5. Glit­ur­ský (ský með glitra­efni, oft nota um norurljósaský)
  6. Tungl­skins­hnöttur (hnöttur undir ljóma tunglsins)
  7. Raukku­súlur (súlu­laga mynstur úr basalti sem mynd­ast við storku kviku)
  8. Þokka­dísil­regn (mjög létt regn og næstum óþreyt­andi)
    9–10: Ég vil gefa tveim mögu­leikum aukin vægi:
  • Blómstra­vaka: blanda af blómstra­vör og vöku; sú staund þegar nátt­úran vaknar til lífs eftir veturvori.
  • Stafn­bogi: bóginn yfir skipi framan­verđu; hann bendir fram á leiđ.

Hugs­an­lega finnst sum orđ hérna ekki öllum jafn­fal­leg en ég vonast til ađ vali mitt hrífji þig samt einhvern veginn!“