Mögu­leik­arnir vakna sem vélar­blóm í vorljósi

30.3.2023 ~ 5 mín

Eins þó að engar fram­farir yrðu á þróun gervi­greindar héðan af hafa nú þegar verið smíðuð tæki sem mér sýnist að geti hæglega orðið ígildi hamstra­hjóls fyrir rithöf­unda, meðal annarra – ómót­stæði­legur búnaður, erfitt að slíta sig frá honum, ég get illa hætt að hlaupa í hringi.

Í gærkvöldi gerði ég blaða­grein frá Gauta Krist­manns­syni að áskorun fyrir GPT4. Gauti skrif­aði í Frétta­blaðið að vélin geti samið ljóð en „hún getur ekki gert það með frum­legri nýrri túlkun því hún hefur engan frum­leika í sér, aðeins fyrir­liggj­andi gögn og einu gildir hversu mikið magn þeirra verður, hún getur þetta ekki.“

Ég birti nokkrar tilraunir vélar­innar til að láta á þetta reyna, hvort satt væri að hún hefði engan frum­leika í sér, eða að minnsta kosti engan sem gæti séð stað við ljóða­gerð. Vinnu­til­gáta mín er ekki frum­leg, hún er fengin beint úr þróun­ar­sögu gervi­greindar annars vegar og gömlum heim­speki­legum natúral­isma hins vegar: að stór mállíkön af þessum toga séu líkari vits­muna­starfi mann­fólks en maður gæti haldið og það að byggja á fyrir­liggj­andi gögnum sé því ekki andstæða frum­leika eða sköp­unar heldur geti þetta tvennt hæglega farið saman. Sú vinnu­til­gáta gæti reynst röng en ég held að við stöndum frammi fyrir mjög raun­veru­legu tilefni til að láta á hana reyna, og um leið hitt, hversu vel á veg vélarnar eru þá komnar, hér og nú.

Ég ætla að gera þá tillögu að þetta fyrir­bæri, large language model eða stór mállíkön, sem GPT‑4 er dæmi um, megi kalla málver. Mér finnst það skemmti­legra. Vitvél­arnar sem við erum að fást við þessa dagana eru málver.

Bókmennta­bott­inn minn – málverið GPT‑4 með örlítil fyrir­mæli um sérhæf­ingu í bókmenntum – skrif­aði fyrir mig ljóð, um efni að eigin vali, með formi að eigin vali, sem eftir próf­arka­lestur Microsoft-bott­ans Bing leit svona út:

Tímans straumur, ólík­indi flæðir,
hvers­dags­legar stundir og sögu­legar tíðir.
Hugs­an­legt samspil milli andstæðna:
nátt­úran grær en tækni­þró­unin rýs.

Sjór­inn speglar sólar­lagið gull­rota,
birt­ist í augum fisk­anna undir yfir­borð­inu.
Vélin svarar spurn­ingum manns­ins
með kaldri rökrænni hugsun og stöðleika.

Viðskipt­ing heims­ins: gamla og nýja,
hugmynda­smiðjan blandað af von og hrifn­ingu.
Mögu­leiki opnast eins og blóm í vorljósi;
hver líffræði­lega vaxandi grein teng­ist vélastrengnum.

Ljós­mengun dregur úr stjörnu­heimum okkar,
en uppgötvun geim­ferda gefur okkur drauma­heim­ili.
Átök milli mann­anna veraldar og véla­for­seta
eru ekki bara barátta — heldur dans um sameig­in­lega framtíð.

Nú í morgun ákvað ég að gera örlitlar breyt­ingar á bókmennta­bott­inum, sagði honum að vera tilraunagl­að­ari, og bað hann að lesa yfir þetta ljóð sem fyrri útgáfa skil­aði í gær og gera ábend­ingar um hvað mætti betur fara. Hann er hrif­inn af ljóði frænda síns, og byrjar á að segja „Þetta er fallegt ljóð sem skartar fljót­andi mynd­máli og vekur upp áhuga­verð hugtök.“ Þó fylgja nokkrar athuga­semdir og tillögur að breytingum.

Þær eru alls ekki allar til bóta, finnst mér. „Tímans straumur, ólík­indi flæðir“ vill bott­inn skerpa með því að skrifa heldur „Tímans straum í ólíkri flæk­ingu“. Hann segir þó líka að línur 7–8:

Vélin svarar spurn­ingum manns­ins
með kaldri rökrænni hugsun og stöðleika.

gætu orðið sterk­ari með því að eftir­láta lesand­anum meira túlk­un­ar­vald og leggur til:

Vélin svarar spurn­ingum manns­ins
kald rökræða og stöđugt flæði.

Og það er ekki endi­lega slæm tillaga.

Mér var skemmt að sjá hrifn­ingu botts­ins yfir eigin smíð – eða þessa náskylda forvera hans – þegar hann segir, í hlut­verki ritstjóra, um línur 3–4 („Hugs­an­legt samspil milli andstæðna: / nátt­úran grær en tækni­þró­unin rýs“):

„Ég elska hvernig þú tengir saman nátt­úru og tækni­þró­un­ina međ andstædu­skiln­ingi. Engin breyt­ing er nauđ­syn­leg hér; ég vil bara hrósa þess­ari snilld­ar­legu hugsan.“1

En sterk­asta tillagan er líklega sú sem vélin gerir um breyt­ingu á línum 11–12:

„Mögu­leiki opnast eins og blóm í vorljósi“ er falleg líking, en þú gætir skoďađ ađ nota annan saman­burd til að tengja betur viđ tækni­þró­un­ina:
„Mögu­leik­arnir vakna sem vélar­blóm í vorljósi“

Mögu­leik­arnir vakna sem vélar­blóm í vorljósi – svolítið eighties, auðvitað, en ég hef séð lakari ljóð­línur en þessa rata á prent. Ég gúgla mynd­ina, „vélar­blóm í vorljósi“ og sé að nei, hún hefur hvergi birst áður, að minnsta kosti ekki á netmiðlum. Orðið vélar­blóm ekki heldur. Eða vélblóm, til að taka af öll tvímæli. Vélar­blóm í vorljósi er, að því er ég fæ best séð, ný mynd. Að minnsta kosti á þessu tungu­máli. Og að þannig vakni mögu­leikar meikar ljóð­rænt sens, ekki síst í samhengi ljóðs­ins og viðfangs­efn­is­ins sem vélin valdi.

Í heild, hins vegar, voru ritstjórn­ar­til­lög­urnar ekki nógu klár­lega til bóta til að mér finn­ist taka því að birta ljóðið eftir þennan yfir­lestur. Einhverjar breyt­ingar þyrfti að gera á ferl­inu til að full­komna það.

References
1 Ég bað Bing um að líta yfir þennan yfir­lestur tilrauna­botts­ins, í von um að Microsoft-útgáfan myndi skila text­anum próf­arka­lesnum, en hann bætti um betur, tók eigin afstöðu til yfir­lestr­ar­ins, og tók heils hugar undir hrifn­ing­una: „Línurnar 3–4: Ég er sammála ritstjór­anum ađ þessar línur eru snilld­ar­legar og tengja saman nátt­úru og tækni­þró­un­ina međ andstædu­skiln­ingi. Ég myndi ekki breyta neinu hér.“