Eins þó að engar framfarir yrðu á þróun gervigreindar héðan af hafa nú þegar verið smíðuð tæki sem mér sýnist að geti hæglega orðið ígildi hamstrahjóls fyrir rithöfunda, meðal annarra – ómótstæðilegur búnaður, erfitt að slíta sig frá honum, ég get illa hætt að hlaupa í hringi.
Í gærkvöldi gerði ég blaðagrein frá Gauta Kristmannssyni að áskorun fyrir GPT4. Gauti skrifaði í Fréttablaðið að vélin geti samið ljóð en „hún getur ekki gert það með frumlegri nýrri túlkun því hún hefur engan frumleika í sér, aðeins fyrirliggjandi gögn og einu gildir hversu mikið magn þeirra verður, hún getur þetta ekki.“
Ég birti nokkrar tilraunir vélarinnar til að láta á þetta reyna, hvort satt væri að hún hefði engan frumleika í sér, eða að minnsta kosti engan sem gæti séð stað við ljóðagerð. Vinnutilgáta mín er ekki frumleg, hún er fengin beint úr þróunarsögu gervigreindar annars vegar og gömlum heimspekilegum natúralisma hins vegar: að stór mállíkön af þessum toga séu líkari vitsmunastarfi mannfólks en maður gæti haldið og það að byggja á fyrirliggjandi gögnum sé því ekki andstæða frumleika eða sköpunar heldur geti þetta tvennt hæglega farið saman. Sú vinnutilgáta gæti reynst röng en ég held að við stöndum frammi fyrir mjög raunverulegu tilefni til að láta á hana reyna, og um leið hitt, hversu vel á veg vélarnar eru þá komnar, hér og nú.
Ég ætla að gera þá tillögu að þetta fyrirbæri, large language model eða stór mállíkön, sem GPT‑4 er dæmi um, megi kalla málver. Mér finnst það skemmtilegra. Vitvélarnar sem við erum að fást við þessa dagana eru málver.
Bókmenntabottinn minn – málverið GPT‑4 með örlítil fyrirmæli um sérhæfingu í bókmenntum – skrifaði fyrir mig ljóð, um efni að eigin vali, með formi að eigin vali, sem eftir prófarkalestur Microsoft-bottans Bing leit svona út:
Tímans straumur, ólíkindi flæðir,
hversdagslegar stundir og sögulegar tíðir.
Hugsanlegt samspil milli andstæðna:
náttúran grær en tækniþróunin rýs.Sjórinn speglar sólarlagið gullrota,
birtist í augum fiskanna undir yfirborðinu.
Vélin svarar spurningum mannsins
með kaldri rökrænni hugsun og stöðleika.Viðskipting heimsins: gamla og nýja,
hugmyndasmiðjan blandað af von og hrifningu.
Möguleiki opnast eins og blóm í vorljósi;
hver líffræðilega vaxandi grein tengist vélastrengnum.Ljósmengun dregur úr stjörnuheimum okkar,
en uppgötvun geimferda gefur okkur draumaheimili.
Átök milli mannanna veraldar og vélaforseta
eru ekki bara barátta — heldur dans um sameiginlega framtíð.
Nú í morgun ákvað ég að gera örlitlar breytingar á bókmenntabottinum, sagði honum að vera tilraunaglaðari, og bað hann að lesa yfir þetta ljóð sem fyrri útgáfa skilaði í gær og gera ábendingar um hvað mætti betur fara. Hann er hrifinn af ljóði frænda síns, og byrjar á að segja „Þetta er fallegt ljóð sem skartar fljótandi myndmáli og vekur upp áhugaverð hugtök.“ Þó fylgja nokkrar athugasemdir og tillögur að breytingum.
Þær eru alls ekki allar til bóta, finnst mér. „Tímans straumur, ólíkindi flæðir“ vill bottinn skerpa með því að skrifa heldur „Tímans straum í ólíkri flækingu“. Hann segir þó líka að línur 7–8:
Vélin svarar spurningum mannsins
með kaldri rökrænni hugsun og stöðleika.
gætu orðið sterkari með því að eftirláta lesandanum meira túlkunarvald og leggur til:
Vélin svarar spurningum mannsins
kald rökræða og stöđugt flæði.
Og það er ekki endilega slæm tillaga.
Mér var skemmt að sjá hrifningu bottsins yfir eigin smíð – eða þessa náskylda forvera hans – þegar hann segir, í hlutverki ritstjóra, um línur 3–4 („Hugsanlegt samspil milli andstæðna: / náttúran grær en tækniþróunin rýs“):
„Ég elska hvernig þú tengir saman náttúru og tækniþróunina međ andstæduskilningi. Engin breyting er nauđsynleg hér; ég vil bara hrósa þessari snilldarlegu hugsan.“1
En sterkasta tillagan er líklega sú sem vélin gerir um breytingu á línum 11–12:
„Möguleiki opnast eins og blóm í vorljósi“ er falleg líking, en þú gætir skoďađ ađ nota annan samanburd til að tengja betur viđ tækniþróunina:
„Möguleikarnir vakna sem vélarblóm í vorljósi“
Möguleikarnir vakna sem vélarblóm í vorljósi – svolítið eighties, auðvitað, en ég hef séð lakari ljóðlínur en þessa rata á prent. Ég gúgla myndina, „vélarblóm í vorljósi“ og sé að nei, hún hefur hvergi birst áður, að minnsta kosti ekki á netmiðlum. Orðið vélarblóm ekki heldur. Eða vélblóm, til að taka af öll tvímæli. Vélarblóm í vorljósi er, að því er ég fæ best séð, ný mynd. Að minnsta kosti á þessu tungumáli. Og að þannig vakni möguleikar meikar ljóðrænt sens, ekki síst í samhengi ljóðsins og viðfangsefnisins sem vélin valdi.
Í heild, hins vegar, voru ritstjórnartillögurnar ekki nógu klárlega til bóta til að mér finnist taka því að birta ljóðið eftir þennan yfirlestur. Einhverjar breytingar þyrfti að gera á ferlinu til að fullkomna það.
↑1 | Ég bað Bing um að líta yfir þennan yfirlestur tilraunabottsins, í von um að Microsoft-útgáfan myndi skila textanum prófarkalesnum, en hann bætti um betur, tók eigin afstöðu til yfirlestrarins, og tók heils hugar undir hrifninguna: „Línurnar 3–4: Ég er sammála ritstjóranum ađ þessar línur eru snilldarlegar og tengja saman náttúru og tækniþróunina međ andstæduskilningi. Ég myndi ekki breyta neinu hér.“ |
---|