Japanski rithöfundurinn Kenzaburō Ōe var að deyja. Hann varð 88 ára.
Hér er bloggfærsla frá 2017, þar sem ég minnist á hann. Það var bara um daginn, en samt er of langt síðan til að ég muni hvað var í hvaða bók eða treysti mér til að skrifa neitt um hann af viti. En einhver ætti, held ég, að segja takk, líka á íslensku. Ég las örfáar bækur eftir hann, það kvaldi mig, ég naut þess, ég lærði eitthvað. Eitthvað, ég meina þónokkuð eða eitthvað sem skipti mig máli. Eitthvað um hvernig má umgangast skurðpunkta einkalífs og mannkynssögunnar. Og snertifleti þess sóðalega og þess ástríka. Eitthvað óvænt um samsetningu stærða. Eitthvað um hversdagslegan ósammælanleika. Sem er kannski satt um alla áríðandi höfunda. Þó að ég hafi ekkert klárt að segja um það núna og bloggfærslan sé ekki merkileg, reyndar eiginlega beinlínis andstæða alls sem er merkilegt, eins konar botnlag bókmenntaformanna (sagt er um sumt að það sé ekki virði pappírsins sem það er skrifað á en bloggfærslur eru ekki einu sinni skrifaðar á pappír, um leið og rafmagnið fer eru þær horfnar, subbuleg sjónhverfing sem gengur fyrir fossum, olíu, kolum og kjarnorku) þá er hún ærleg, eða vill að minnsta kosti vera ærleg, og þessi tiltekna bloggfærsla, svo langt sem það nær, ærlega sprottin í kringum lestur á Ōe. Og þetta orð, ærlegt, á í öllu falli heima einhvers staðar í grennd við þau verka hans sem urðu á vegi mínum. Takk, Ōe.