Takk fyrir, Ōe

14.3.2023 ~ 1 mín

Japanski rithöf­und­ur­inn Kenza­burō Ōe var að deyja. Hann varð 88 ára.

Hér er blogg­færsla frá 2017, þar sem ég minn­ist á hann. Það var bara um daginn, en samt er of langt síðan til að ég muni hvað var í hvaða bók eða treysti mér til að skrifa neitt um hann af viti. En einhver ætti, held ég, að segja takk, líka á íslensku. Ég las örfáar bækur eftir hann, það kvaldi mig, ég naut þess, ég lærði eitt­hvað. Eitt­hvað, ég meina þónokkuð eða eitt­hvað sem skipti mig máli. Eitt­hvað um hvernig má umgang­ast skurð­punkta einka­lífs og mann­kyns­sög­unnar. Og snertifleti þess sóða­lega og þess ástríka. Eitt­hvað óvænt um samsetn­ingu stærða. Eitt­hvað um hvers­dags­legan ósam­mæl­an­leika. Sem er kannski satt um alla áríð­andi höfunda. Þó að ég hafi ekkert klárt að segja um það núna og blogg­færslan sé ekki merki­leg, reyndar eigin­lega bein­línis andstæða alls sem er merki­legt, eins konar botn­lag bókmennta­formanna (sagt er um sumt að það sé ekki virði papp­írs­ins sem það er skrifað á en blogg­færslur eru ekki einu sinni skrif­aðar á pappír, um leið og rafmagnið fer eru þær horfnar, subbu­leg sjón­hverf­ing sem gengur fyrir fossum, olíu, kolum og kjarn­orku) þá er hún ærleg, eða vill að minnsta kosti vera ærleg, og þessi tiltekna blogg­færsla, svo langt sem það nær, ærlega sprottin í kringum lestur á Ōe. Og þetta orð, ærlegt, á í öllu falli heima einhvers staðar í grennd við þau verka hans sem urðu á vegi mínum. Takk, Ōe.